Þeim Bakkabræðrum hafði verið sagt að það væri ósköp hollt fyrir þá að gera sér endrum og sinnum heitar fótlaugar. En af því jafnan var þröngt um eldivið hjá þeim tímdu þeir ekki að hita vatn til þess.
Einu sinni vildi svo vel til að þeir hittu fyrir sér laug eða hver á ferð sinni. Nú hugsuðu þeir sér gott til glóðarinnar að þeir skyldu fá sér heitar fótlaugar fyrir ekki neitt, tóku því af sér skó og sokka og settust hver hjá öðrum í kringum hverinn og höfðu fæturna ofan í.
Þegar þeir fóru að gæta að, þekkti enginn þeirra sína fætur frá hinna. Með þetta voru þeir lengi í stöku ráðaleysi. Þeir þorðu ekki að hreyfa sig því þeir vissu ekki nema þeir kynnu að taka skakkt til og taka hver annars fætur og sátu svona þangað til þar bar að ferðamann.
Þeir kölluðu til hans og báðu hann í öllum bænum að þekkja í sundur á þeim fæturna. Maðurinn gekk til þeirra og sló með stafnum sínum á lappirnar á þeim og kannaðist þá hver við sínar.
Hlustaðu á söguna:
Sögumaður:
Hafdís Erla Bogadóttir
Heimildir:
Íslenskar þjóðsögur.
Höfundur: Benedikt Jóhannesson/Jóhannes Benediktsson
Teiknari:
Eyrún Óskarsdóttir
Tölvugrafík:
Björk Harðardóttir
Hljóðvinnsla:
Hafdís Erla Bogadóttir
Myndband:
Markús Sveinn Markússon