Jóra í Jórukleif

Jórunn hét stúlka ein. Hún var bóndadóttir einhvers staðar úr Sandvíkurhrepp í Flóanum. Ung var hún og efnileg en heldur þótti hún skapstór. Hún var matselja hjá föður sínum. Einhvern dag bar svo við að hestaat var haldið skammt frá bæ Jórunnar. Átti faðir hennar annan hestinn er etja skyldi og hafði Jórunn miklar mætur á honum. Hún var viðstödd hestaatið og fleiri konur en er atið byrjaði sá hún að hestur föður hennar fór heldur halloka fyrir. Varð Jórunn svo æf við það og tryllt að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið. Hljóp hún þegar með það svo ekki festi hönd á henni upp að Ölfusá hjá Laxfossi, þreif þar upp bjarg eitt mikið úr hömrunum við ána og kastaði því nálega út á miðja á. Síðan hljóp hún yfir á stillum þessum og mælti um leið:

„Mátulegt er meyjarstig,
mál mun vera að gifta sig.“

Heitir þar síðan Tröllkonuhlaup, aðrir segja Jóruhlaup. Þar hélt hún upp Ölfus, austan undir Ingólfsfjalli, og upp í Grafning uns hún kom að hamragili því sem liggur vestur úr Grafningi, skammt frá Nesjum. Eftir því fór hún og linnti ekki á fyrr en hún kom upp í Hengil. Þar tók hún sér bólfestu og er þar síðan kallaður Jóruhellir og varð versta tröll og grandaði bæði mönnum og málleysingjum.

Þegar Jóra var sest að í Henglinum, var það siður hennar að hún gekk upp á hnjúk einn í Henglafjöllum og sat löngum þar sem síðan heitir Jórusöðull. Er hann skammt frá sjónarhól hennar á háfjallinu. Af sjónarhól skyggndist hún um eftir ferðamönnum sem um veginn fóru, bæði um Grafning fyrir vestan Þingvallavatn og um Dyraveg norðan undir Henglinum sem liggur skammt frá hamragili því sem áður er nefnt og heitir enn í dag Jórukleif af því Jórunn lá þar oft fyrir ferðamönnum til að ræna þá eða drepa eftir það hún var búin með hestlærið. Þar með gjörðist hún svo ill og hamrömm að hún eyddi byggðina í nánd við sig en vegirnir lögðust af. Þótti byggðamönnum svo mikið mein að þessari óvætt að þeir gjörðu mannsöfnuð til að ráða hana af dögum en engu fengu þeir áorkað að heldur.

Nú, þegar í þessi vandræði var komið og engin ráð fengust til að vinna Jóru, því svo var hún kölluð eftir það hún trylltist, né heldur til að stökkva henni á burtu, varð til ungur maður einn sem var í förum landa á milli og var um vetur í Noregi. Hann gekk fyrir konung einn dag og sagði honum frá meinvætti þessum sem í Henglinum byggi og bað konung kenna sér ráð til að ráða tröllið af dögum.

Konungur segir að hann skuli fara að Jóru um sólaruppkomu á hvítasunnumorgun, „því ekki er svo vond vættur né svo hamrammt tröll til, að ekki sofi það þá,“ segir konungur. „Muntu þá koma að Jóru sofandi og mun hún liggja á grúfu. Er hér öxi er ég vil gefa þér,“ segir konungur og fékk honum um leið öxi silfurrekna: „Og skaltu höggva henni milli herða tröllsins. Mun þá Jóra vakna er hún kennir sársaukans, snúa sér við og segja: „Verði hendur við skaft fastar.“ Þá skaltu segja: „Losni þá öxin af skaftinu.“ Mun hvort tveggja verða að áhrínsorðum og mun Jóra velta sér niður í vatn það sem þar er ekki langt frá er hún liggur í Jórukleif með axarblaðið milli herðanna. Mun axarblaðið síðan reka upp í á þá sem við hana mun kennd verða. Þar munu Íslendingar síðan velja sér þingstað.“

Svo mælti konungur en maðurinn þakkaði honum ráðin og axargjöfina. Fór hann síðan út til Íslands og fór að öllu sem konungur hafði fyrir hann lagt og banaði Jóru. Rættist öll spá konungs og rak axarblaðið í á þá sem síðan heitir Öxará þar sem Íslendingar settu alþing sitt.

 

Hlustaðu á söguna:

 

Sögumaður:
Hafdís Erla Bogadóttir

Heimildir:
Íslenskar þjóðsögur.
Höfundur: Benedikt Jóhannesson/Jóhannes Benediktsson

Teiknari:
Eyrún Óskarsdóttir

Tölvugrafík:
Björk Harðardóttir

Hljóðvinnsla:
Hafdís Erla Bogadóttir

Myndband:
Markús Sveinn Markússon

Start typing and press Enter to search

Karfa