Krummasaga

Í Vatnsdal fyrir norðan er mælt að nokkrir bæir hafi farist af skriðum sem fallið hafi úr Vatnsdalsfjalli. Meðal þessara bæja var einn sem hét Gullberastaðir. Bóndadóttirin á Gullberastöðum hafði haft þá venju að gefa bæjarhrafninum ætíð þegar hún borðaði. Einu sinni, þegar hún eftir venju rétti honum út um gluggann það sem hún ætlaði að gefa honum, þá vildi krummi ekki taka við. Stúlkuna furðaði á þessu og fór út með það. Krummi kom mikið nálægt henni en vildi þó ekki þiggja matinn en lét einatt líklega svo stúlkan elti hann út í túnið, spölkorn frá bænum. En þegar þau voru komin þangað, heyrir hún dunur miklar uppi í fjallinu og allt í einu féll úr því skriða sem rann báðum megin við þau krumma og bóndadóttur en kom ekki á þann blett sem þau voru á. Bærinn þar á móti varð fyrir skriðunni og tók hún hann af með öllu sem í honum var, lifandi og dauðu. Launaði krummi þannig bóndadóttur matinn. En orsökin til þess að skriðan féll ekki yfir blettinn sem þau krummi og bóndadóttir stóðu á var sú að þegar Guðmundur biskup helgi einu sinni fór þar um, þá hafði hann tjaldað á bletti þessum. En áður en hann tók sig upp þaðan, vígði hann tjaldstaðinn, eins og hann var oft vanur að gjöra, og því gat þar enginn síðan orðið fyrir neinu grandi.

Þess er enn fremur getið að svo sem þrem árum eftir að skriðan hljóp, þá var þar smali á ferð og reið yfir skriðurnar þar sem bærinn hafði staðið og skrapp hesturinn í. Smalinn fer að hugsa um þetta og dettur í hug að það geti verið að hann hafi riðið yfir bæinn og hafi hús brotnað inn. Hann gengur þá að holunni og finnur að upp úr henni leggur talsverðan óþef. Hyggur hann þá betur að og vill vita hvað til ólyktarinnar muni koma. Hleður hann þá vörðubrot dálítið hjá holunni. Þegar hann kom heim til sín, sagði hann frá þessu. Var þá farið og holan stækkuð svo mikið að inn mátti komast í hana. Var þetta þá búrið og konan þar tórandi í. Átti hún að hafa verið þar stödd þegar skriðan féll á bæinn. En búrið var nýbyggt og brotnaði því ekki en því gat konan lifað þar allan þennan tíma að skriðan féll um haust, eftir að búið var að draga að vetrarforðann.

 

 

Hlustaðu á söguna:

 

Sögumaður:
Hafdís Erla Bogadóttir

Heimildir:
Íslenskar þjóðsögur.
Höfundur: Benedikt Jóhannesson/Jóhannes Benediktsson

Teiknari:
Eyrún Óskarsdóttir

Tölvugrafík:
Björk Harðardóttir

Hljóðvinnsla:
Hafdís Erla Bogadóttir

Myndband:
Markús Sveinn Markússon

Start typing and press Enter to search

Karfa